Sunnuhlíð

Hjúkrunarheimilið

Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópvogi, er fyrsta byggingin á Íslandi sem er sérhönnuð sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Það hóf rekstur 25. maí 1982, þegar fyrsti íbúinn var innritaður, en það var sjálfur Þórður Þorsteinsson á Sæbóli, fyrrverandi hreppstjóri Kópavogshrepps. Síðan þá hafa vel á sjötta hundrað einstaklingar búið í Sunnuhlíð í lengri eða skemmri tíma og notið þar hjúkrunar og umönnunar.

Frá 1. janúar 2014 er hjúkrunarheimilið rekið af Vigdísarholti ehf. en það er félag í eigu velferðar- og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Í hjúkrunarheimilinu eru 70 hjúkrunarrúm í 53 herbergjum, 36 einstaklings og 17 tveggja manna. Heimilinu er skipt í tvær deildir og fjórar  starfseiningar. Ein af starfseiningunum 11 rúma eining fyrir heilabilaða. Sú deild var opnuð 1991 og mun vera sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Deildirnar kallast Þinghóll,  Hvammur, Lundur  og Álfhóll, allt þekkt örnefni í Kópavogi. Þá er einnig í hjúkrunarheimilinu fullkomið eldhús, mjög góð aðstaða fyrir sjúkraþjálfun, einnig félagslegt starf og skrifstofa. Starfsmenn eru að jafnaði rúmlega 120 í um 80 stöðugildum.

Á vegum Rauðakrossdeildar Kópavogs eru starfandi sjúkravinir, en þeir hafa í fjölda ára heimsótt íbúa heimilisins og séð um upplestur, söng og samveru. Koma þau einu sinni til tvisvar á dag flesta daga vikunnar. Þá taka sjúkravinir einnig þátt í helgistund og heimsóknir hunda á vegum sjúkravina eru vinsælar. Inn af setustofu er lítil kapella og koma sóknarprestar í Kópavogi vikulega, alltaf á fimmtudögum, og sjá um helgistund með íbúum.

Markmið Sunnuhlíðar er að vera ávallt í fremstu röð hjúkrunarheimila í landinu hvað varðar þjónustu við íbúa, aðbúnað þeirra og starfsfólks. Til að ná þessum markmiðum þarf heimilið að vera aðlaðandi starfsvettvangur sem hefur á að skipa hæfu, metnaðarfullu og góðu starfsfólki og þar hefur vel tekist til. Öll hönnun og val á hús- og tækjabúnaði miðast við að starfsemi, húsnæði og aðbúnaður sé með því besta sem sem völ er á hverju sinni. Íbúar hjúkrunarheimilisins og aðstandendur þeirra eru best til vitnis um hvort þessi markmið nást.Hjú

Sunnuhlíð - Kópavogsbraut 1c - Sími: 5604100 - Fax: 5604175