Sunnuhlíð

Gjöf Lionsmanna

Lionsmenn úr Lionsklúbbi Kópavogs og Lionsklúbbnum Muninn komu í heimsókn í Sunnuhlíð 29.11.2012 til að tilkynna formlega um væntanlega gjöf þeirra til hjúkrunarheimilisins. Klúbbarnir héldu sameiginlega veglegt herrakvöld síðastliðið vor. Samkoman var vel sótt og fylltu gestirnir félagsheimilið Lund, félagsheimili Lionsklúbbana í Kópavogi. Veitingamaður staðarins bauð uppá dýrðlegt hlaðborð fiskrétta og menn skemmtu hver öðrum með góðum sögum og ræðuhöldum. Allur ágóði af skamkomunni rennur til endurbóta á húsnæði heilabilunardeildar Sunnuhlíðar, Álfhól. Til að auka verðmæti  gjafarinnar hyggjast félagar klúbbanna hjálpa til við uppsetningu innréttinga og tækja sem keypt verða fyrir það sem ágóði herrakvöldsins skilaði.

Sömu klúbbbar hafa haldið skötuveislu undanfarin ár við vaxandi vinsældir Kópavogsbúa. Skötuveislan í ár verður haldin í Lundi daginn fyrir Þorláksmessu, laugardaginn 22. desember, og mun allur ágóði af henni einnig renna til sama verkefnis í Sunnuhlíð. Kópavogsbúar og aðrir velunnarar Sunnuhlíðar eru hvattir til að mæta í skötuveisluna og leggja um leið góðu málefni lið.

Sunnuhlíð - Kópavogsbraut 1c - Sími: 5604100 - Fax: 5604175