Sunnuhlíð

30 ára afmæli Sunnuhlíðar

Fyrir rúmum 30 árum ákváðu Kópavogsbúar að taka höndum saman og reisa hjúkrunarheimili fyrir aldraða íbúa bæjarins undir forystu samtaka félaga og klúbba í bænum sem síðar hafa gengið undir nafninu Sunnuhlíðarsamtökin. Lögðust bæjarbúar á eitt um að safna fé til byggingarinnar. Samhugur og samhjálp var mikil meðal Kópavogsbúa og það kom berlega í ljós þegar leitað var til þeirra um stuðning við að reisa hjúkrunarheimilið. Þessi tími er mörgum Kópavogsbúum minnisstæður, og þá sérstaklega baukasöfnunin.

Það var að frumkvæði Soroptimistaklúbbs Kópavogs sem 9 klúbbar og félög sameinuðust um að stofna sjálfseignarstofnunina Hjúkrunarheimili aldraðra í Kópvogi þann 17. mars 1979. Rúmum þremur árum seinna eða þann 20. maí 1982 var hjúkrunarheimilið vígt og því gefið nafnið Sunnuhlíð. Um 3.000 manns komu á vígsluhátíðina og stemmningin í bænum eins og á þjóðhátíðardegi, enda höfðu nær öll heimili í bænum lagt eitthvað af mörkum til byggingarinnar. Aðeins 5 dögum seinna hófst starfsemin, þegar fyrsti heimilismaðurinn flutti inn í hjúkrunarheimilið. Síðan þá hafa um 930 manns dvalið í Sunnuhlíð í lengri eða skemmri tíma og notið þar hjúkrunar og umönnunar frábærra starfsmanna.

Sunnuhlíð - Kópavogsbraut 1c - Sími: 5604100 - Fax: 5604175