Sunnuhlíð

Aufúsugestir

Miðvikudaginn 14. mars komu systur úr Soroptimistaklúbbi Kópavogs færandi hendi í Dagdvöl Sunnuhlíðar. Færðu þær Dagdvöl afrakstur kaffisölunnar frá því í nóvember að gjöf, kr. 100.000. Undanfarin ár hafa þær Soroptimistasystur verið með kaffisölu í tengslum við opið hús í Dagdvölinni (áður bazar) sem haldið er fyrsta laugardag í nóvember á hverju ári. Hafa þær alltaf gefið Dagdvölinni ágóðann að kaffisölunni (og gott betur) til að styrkja starfsemina.

Í Dagdvöl koma 18 manns á dag, en um 40 – 50 manns koma í hverri viku. Flestir koma tvisvar til þrisvar í viku, en sumir koma einu sinni og aðrir fjóra eða fimm daga vikunnar. Meðalaldur þeirra sem koma í Dagdvölina eru um 83 ár. Markmið Dagdvalar er að veita félagslega þjónustu sem miðar að því að draga úr eða varast félagslega einangrun og styðja fjölskyldur sem hafa aldraða ættingja heima. Starfskraftar og húsnæði miða við ákveðna færni einstaklinga, m.a. að viðkomandi þurfi ekki á hjúkrun að halda.

Soroptimistar eru framsækin og sveigjanleg alþjóðasamtök fyrir nútímakonur í stjórnun og öðrum sérhæfðum störfum. Soroptimistar stuðla að heimsmynd þar sem konur og stúlkur ná í sameiningu fram því besta sem völ er á, bæði sem einstaklingar og sem hópur, og þar sem þær geta látið drauma sína rætast og til jafns við aðra skapað sterk og friðsöm samfélög um allan heim.

Soroptimistaklúbbur Kópavogs er stofnaðili að Sunnuhlíðarstamtökunum og hefur styrkt starfsemi Sunnuhlíðar með margvíslegum og rausnarlegum hætti allt frá stofnun.

Sunnuhlíð færir systrum í Soroptimistaklúbbi Kópavogs innilegar þakkir fyrir gjöfina.

Sunnuhlíð - Kópavogsbraut 1c - Sími: 5604100 - Fax: 5604175