Sunnuhlíð

Afhending teppa

Heimilisfólk í Sunnuhlíð hefur undanfarin ár prjónað fjöldan allan af teppum fyrir ung börn sem send hafa verið til fátækari landa í Afríku og austur-evrópu. í október voru kassar með teppum afhentir í fjórða sinn.

Teppin eru prjónuð úr afgangsgarni sem gefið er til Sunnuhlíðar og nýtist því vel. Mæður með ung börn fá afhendan pakka með ýmsum nytsamlegum hlutum og eru teppin m.a. hluti af pakkanum. Það kemur sér vel á köldum vetrarkvöldum að hafa hlýtt teppi til að ylja sér.

Það er Rauði krossinn sem tekur við teppunum og sendir þau  áfram til þeirra sem á þurfa að halda.

Á myndinni er Hrafnhildur Helgadóttir frá Kópavogsdeild Rauðakrossins að segja frá verkefninu og sýna myndir frá því þegar teppin eru afhent.


Bakað fyrir jólin

Á stóru heimili þarf að sjálfsögðu að baka fyrir jólin. Nokkrir galvaskir heimilismenn tóku sig til og bökuðu súkkulaðibitajólakökur. Þetta eru með bragðbetri jólakökum sem hafa verið bakaðar enda hurfu þær fljótt ofan í maga heimilismanna, gesta og starfsfólks. Ekki spillti fyrir að ilminn af nýbökuðum kökum lagði um allt hús og minnti okkur á að stutt er í jólahátíðina.


Samstarf við Urðarhvol

Tvisvar í viku kemur hópur barna úr leikskólanum Urðarhvoli í heimsókn. Ýmislegt er gert þær stundir sem þau staldra við, spjallað við heimilismenn, stundum taka þau lagið eða þau fá tilsögn við að leika sér með legg og skel og steina. Síðan er kannski aðalerindið með heimsókninni en það er að búa til listaverk úr þæfðum ullarkúlum. Börnin koma með ull með sér og saman með heimilisfólkinu þæfa þau ullina, sem er í ýmsum litum. Þegar lokið verður við að þæfa nógu margar kúlur verður unnið úr þessu listaverk.  Börnin eru aufúsugestir og ekki má á milli sjá hvorir hafa meira gaman af heimsóknunum, ungir eða aldnir.


Aðventuhátíð í Sunnuhlíð

Sunnudaginn 9. desember var að venju haldin Aðventuhátíð í Sunnuhlíð. Að þessu sinni var prestur séra Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur Digranessóknar. Flutti hann jólahugvekju og einnig sungu félagar frá Rauðakrossdeild Kópavogs og ungur harmoníkuleikari spilaði nokkur lög. Á borðum var að sjálfsögðu heitt súkkulaði og jólasmákökur.


Gjöf Lionsmanna

Lionsmenn úr Lionsklúbbi Kópavogs og Lionsklúbbnum Muninn komu í heimsókn í Sunnuhlíð 29.11.2012 til að tilkynna formlega um væntanlega gjöf þeirra til hjúkrunarheimilisins. Klúbbarnir héldu sameiginlega veglegt herrakvöld síðastliðið vor. Samkoman var vel sótt og fylltu gestirnir félagsheimilið Lund, félagsheimili Lionsklúbbana í Kópavogi. Veitingamaður staðarins bauð uppá dýrðlegt hlaðborð fiskrétta og menn skemmtu hver öðrum með góðum sögum og ræðuhöldum. Allur ágóði af skamkomunni rennur til endurbóta á húsnæði heilabilunardeildar Sunnuhlíðar, Álfhól. Til að auka verðmæti  gjafarinnar hyggjast félagar klúbbanna hjálpa til við uppsetningu innréttinga og tækja sem keypt verða fyrir það sem ágóði herrakvöldsins skilaði.

Sömu klúbbbar hafa haldið skötuveislu undanfarin ár við vaxandi vinsældir Kópavogsbúa. Skötuveislan í ár verður haldin í Lundi daginn fyrir Þorláksmessu, laugardaginn 22. desember, og mun allur ágóði af henni einnig renna til sama verkefnis í Sunnuhlíð. Kópavogsbúar og aðrir velunnarar Sunnuhlíðar eru hvattir til að mæta í skötuveisluna og leggja um leið góðu málefni lið.


Eldri fréttir »

Sunnuhlíð - Kópavogsbraut 1c - Sími: 5604100 - Fax: 5604175